Ekki er alltaf allt sem sýnist.

Gömul lífsreynsla rifjaðist upp fyrir mér þegar ég renndi yfir bloggið í dag.

Þegar ég var "yngri" fylgdi ég að sjálfsögðu dóttur minni til fermingar í sóknarkirkjunni okkar.  Þá var kominn á sá siður að aðstandendur gengu til altaris með fermingarbörnunum við sömu athöfn.  Ég gleymi seint vanþóknunarsvip meðhjálparans þegar hann sá mig sitja eina eftir á kirkjubekknum eftir að hafa veifað mér með vísifingri og ég hristi höfuðið.

Meðhjálparinn gat ekki vitað að ég hafði nýlega undirgengist stóra aðgerð á öðru hnénu og hefði ekki getað kropið við altarisgráturnar þótt líf mitt lægi við.

Nei, Hjáseta er ekki andstaða, eins og bloggvinur Hjörtur J. Guðmundsson segir réttilega:

http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/

 

 


Gjá hefur myndast milli þings og þjóðar

sagði sjálfur forsetinn fyrir fimm árum þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin.

Margir bíða í ofvæni eftir þeirri víðáttu-samlíkingu sem hinn sami forseti mætti nota á mánudaginn kemur þegar Icesavesamningurinn verður lagður á forsetapúltið honum til undirskriftar.

 


Mistökin voru ekki að mæta í þingið

og fylgjast með umræðum þrátt fyrir að hafa eitthvað af borðvíni innanborðs.

Mistökin voru að stíga í pontu.


mbl.is Fékk sér léttvín með mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftkastalar eða raunsætt mat?

Stjórnvöld fullyrða oft, vona oftar og halda oftast.

Fyrr í sumar FULLYRTI ríkisstjórnin að gengi krónunnar myndi rétta sig af í einum grænum við ESB umsókn.  Þegar það brást VONAR hún að gengið batni þegar Icesave ábyrgðin eru í sjónmáli. 

Þann 15. júlí var meðalgengi evrunnar ÍKR. 179.59 - í dag er það ÍKR. 182.99.  Nú hefur ESB umsóknin verið lögð inn á borð framkvæmdastjórnar sambandsins - tvisvar! - fyrst af sendiherra og síðan persónulega af utanríkisráðherra.  Að auki bendir allt til þess að Icesave samningurinn verði samþykktur óbreyttur (með einhverjum gagnslausum fyrirvörum), ef ekki í dag þá á morgun.

Hvar er þá allur "batinn" íslensku krónunnar?    HÉLT ríkisstjórnin kannski bara að krónunni myndi batna? 

 


Segjum NEI við Icesave!

Ég er farin að skilja afstöðu formanns samninganefndarinnar þegar hann sagði "ég nenni ekki að hanga yfir þessu lengur". 

Líklega hefur formanninum fundist samingadrögin svo arfavitlaus að eina vitlega ráðið væri að senda Alþingi samninginn til þess að þingmenn sameinuðust um að finna réttláta og skynsamlega leið til þess að ganga frá málinu. 

Verst er að þingmenn á báða bóga eru að nota málið í pólitískum tilgangi og virðast alveg hafa gleymt hagsmunum umbjóðenda sinna,  íslensks almúga.  Vonbrigði formannsins hljóta að vera alveg jafnmikil og okkar "óbreyttra".

NEI við Icesave getur ekki skapað verra ástand en JÁ við Icesave.

 


Pólskt þjófagengi í gæsluvarðhaldi.

Hundruðum innbrota í heimahús og fyrirtæki undanfarnar vikur/mánuði hefur þar með fækkað  niður undir núllið.  Samkvæmt fréttum er þó enn verið að leita í vistarverum gengisins og enn er að finnast þýfið. 

Einn kunningi minn lenti í þjófagenginu, og eftir boðun til lögreglunnar til þess að bera kennsl á sitt sagði hann, mjög sleginn; þetta var eins og koma inní stórmarkað og skartgripaverslun.

Samkvæmt fréttum samþykkti Héraðsdómur framlengt gæsluvarðhald viðkomandi "grunaðra" um viku eða svo.   En hvað svo?  Á síðan að sleppa liðinu lausu og beita þeim aftur á íslenskan almúga?  Eða kæmi til greina að leigja flugvél undir þjófagengið  og sturta því niður við flugvöllinn í Varsjá?


Fréttnæm gjaldþrot.

Fréttablaðið birtir smáfréttaklausu á innsíðu um gjaldþrot Baugs, sem er þó vel gert hjá blaðinu miðað við tengsl þess við fyrirtækið, svo og Stöðvar 2 sem blaðið vitnar í.   
Eftirfarandi er fréttin í heild:

"Kröfur í þrotabú Baugs eru á þriðja hundrað milljarða króna, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.  Gjaldþrotið er þar með stærsta gjaldþrot fyrirtækis í einkaeigu í Íslandssögunni, að bönkunum frátöldum"   [leturbreyting er mín]
"Frestur til að lýsa kröfum í þrotabúið rann út á miðvikudagskvöld.  Yfir hundrað kröfur eru gerðar í búið, og kemur sú stærsta frá Landsbankanum.  Bæði gamli og nýi Landsbankinn gera kröfu í búið og nema kröfurnar samtals líklega yfir hundrað milljörðum, að því er sagði í fréttum Stöðvar 2."

Ekki sá ég stafkrók í Mogganum um þetta stærsta gjaldþrot þótt fréttnæmt skyldi ætla þegar metin eru slegin.  Að nú ekki sé talað um skýringar á því hvað varð um stóran hluta af Icesave sjóði Landsbankans, eða allt að 100 þúsund milljónum af honum.

 

 


Mismunun hvað?

Neyðarlögin voru sett til þess að halda íslensku þjóðfélagi gangandi, þrátt fyrir bankahrun sem var ekki alfarið íslenskum um að kenna.

Svo ég vitni í MBLgrein Stefáns Más Stefánssnar og Lárusar Blöndal þ.6/7´09:

"Meginatriðið er að innstæðueigendur útibúa, t.d. í Bretlandi og Hollandi, eru ekki tengdir íslenskum hagsmunum með sama hætti og menn og fyrirtæki með heimili hér á landi, t.d. með hliðsjón af fjárfestingum, félagslegri aðstoð, sköttum og fleiri atriðum. Af þessu má ráða að innistæðueigendur í erlendum útibúum íslenskra banka voru í annarri stöðu en þeir sem áttu inneignir í sömu bönkum hér á landi. Réttarstaða þeirra var með öðrum orðum ekki sambærileg". "Þessu til viðbótar er rétt að koma því á framfæri að það er vel þekkt í Evrópurétti að ráðstafanir sem kunna að fela í sér mismunun en eru engu að síður óhjákvæmilegar vegna þjóðfélagsþarfa í almannaþágu fá staðist".

Þannig voru neyðarlögin hugsuð og sett; til þess að almúginn hefði aðgang að launareikningum sínum, hvort sem á þeim var inneign eða yfirdráttarskuld. Í flýti gert en sanngjarnt á þeim tímapunkti.

Verði okkur svo öllum að góðu ef við verðum rukkuð um þá þúsundkalla sem sum okkar áttu hugsanlega í inneign á launareikningnum, svona rétt upp úr mánaðamótum og launaútborgun. Þau okkar sem skulduðu hins vegar annað eins eða meira í yfirdráttarlánum á sambærilegum launareikningum - verðum við stikkfrí? Já, mismunun hvað - það er alltaf spurningin.


mbl.is EES hugsanlega í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferðilegt spursmál - vissulega.

Siðferðilega rétt væri að þeim aðilum sem bera ábyrgð á Icesave verði gert að borga brúsann.
Siðferðilega rangt er að skella skuldabagganum á þá sem eru málinu óviðkomandi.

Er hin siðferðilega hlið Icesave nú loksins farin að trufla þingmenn?


mbl.is Siðferðileg álitaefni Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Auðvald?

Ég er að velta því fyrir mér hvort merkingarbreyting hafi orðið á þessu gamla íslenska heiti  undanfarið. 

Minn skilningur á heitinu er samhljóða orðabók Menningarsjóðs;  "peningaveldi, vald auðmanna, auðstétt".  Hin nýja notkun virðist hins vegar nú orðið beinast að öllum þeim sem tekst að láta mánaðarlaunin duga fram að næstu útborgun.

Það má vera að merkingarbreytingin tengist goðsögninni um að Ísland sé ríkasta þjóð í heimi, enda teldust þá íslendingar sjálfkrafa helstu auðmenn heimsins.  Einhvern veginn finnst mér þetta þó ekki stemma við íslenskan raunveruleika. 

Hvað finnst ykkur hinum; erum við öll orðin auðvald?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband