Valhöll!

Eins og flestir ættu að vita, en virðast vilja gleyma, er hin eina sanna Valhöll himnaríki hinna fornu ásatrúarmanna.  Þangað fóru menn sem misstu lífið á blóðvellinum, til þess að njóta þjónustu fagurra kvenna næturlangt og rísa upp aftur að morgni - einungis til þess að endurtaka leikinn.  

XD Reykjavík skírði félagsheimilið sitt Valhöll, en það fer fáum sögum af villtum veislum með tilheyrandi kvennaþjónustu  þar á bæ - þó vil ég ekki sverja fyrir að ein eða tvær pólitískar upprisur hafi þar átt sér stað.  En það er vinsælt að sletta Valhallarnafninu hér á bloggsíðum; þeir sem eru ekki Jóhönnu-forsætisráðherra-þjónkanlegir eru oftar en ekki kallaðir Valhallarlið.

Rétt nýlega kveikti ég á perunni; auðvitað er ég sjálf af Valhallarliði!  En það er af hinni þriðju Valhöll;  félagsheimili Eskfirðinga þar eystra, sem ég heimsótti oft á unglingsárum, skemmti mér konunglega og lifði ekki aðeins af til morguns heldur gott betur. 

HVAÐA Valhöll áttu við, ágæti  vinur, þegar þú slengir því fram að ég (eða aðrir) séum Valhallarlið?


Áþján fjórfrelsis EES.

Í dag voru tvær fréttir á mbl.is - aðskildar en náskyldar.  Fyrirsögn fyrri fréttarinnar var "Tæplega 17 þúsund án atvinnu" og hinnar síðari "Óseldar 4400 íbúðir".

Útrásin var nefnilega líka innrás.  Byggingarfyrirtækin sáust ekki fyrir í gróðafíkninni og reistu hvert stórhýsið á fætur öðru á örskömmum tíma.  Þau veltu ekkert fyrir sér hvort nokkur væri kaupandinn og þegar engir tiltækir byggingarstarfsmenn fundust í landinu nýttu þeir sér frjálsa flæðið EES vinnuaflsins svo skipti þúsundum, ef ekki tugþúsundum manna.  Afsökun byggingaraðilanna var að í landinu væri vinnuaflsskortur, enda sást þeim ekki fyrir í framkvæmdagleðinni. 

Hver er svo afleiðingin? 

Allar þessar óseldu nýbyggingar verðfella húsnæði almennings um allt að 40% samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn.
Fasteignasölur loka eða fara á hausinn og starfsfólk í greininni fer á atvinnuleysisbætur. 
Einnig fólk í tengdum faggreinum, svo sem arkitektar og verkfræðingar.
Stærstur hluti byggingarmanna, bæði fagmenn og verkamenn, hefur einnig misst atvinnuna, jafnt innlendir sem erlendir; það er búið að fullnægja húsnæðisþörfinni fyrir næstu 5 árin eða svo.
Erlendir verkamenn sitja hér sem fastast á íslenskum atvinnuleysisbótum í stað þess að snúa til síns heima (eða eitthvert annað) í verkefnaleysinu - eins og okkur var talin trú um að væri innbyggt í frjálsa flæðið. 

Það var skakkt gefið í upphafi með þennan EES samning eins og hann var gleyptur af ráðamönnum okkar á sínum tíma - þessum samningi ber að rifta!


Hálfkveðnar vísur?

Er til of mikils mælst að formaður annars stjórnarflokksins og margfaldur ráðherra tali hreint út? Þessi leyndardómsfullu, opnu umræðustjórnmál með allt uppi á borðum eru að verða meira en lítið þreytandi!

HVAÐA NÆRTÆKIR HLUTIR ERU HÆTTULEGRI EN ICESAVESAMNINGURINN?


mbl.is Icesave-skuldbindingarnar ekki hættulegastar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getum EKKI staðið við Icesave!

Hræðsluáróður ríkisstjórnarinnar færist nú í aukana - greinilega svífast stjórnvöld einskis til þess að þóknast erlendu auðvaldi á kostnað íslenskra hagsmuna.

a) útflutningstekjur er EKKI það sama og rekstrarafgangur íslenska ríkisins, og ríkisstjórnin hefur augsýnilega meiri áhuga á að skattleggja almúgann en skapa með sparnaði og hagræðingu þann rekstrarafgang sem þyrfti.

b) samanburður við Kúbu er út í hött. Viðskiptabannið sem BNA setti á Kúbu í kjölfar Svínaflóadeilunnar árið 1962 var ekki vegna fjármálasamninga heldur kjarnorkueldflauga sem Rússar settu upp á Kúbu í samráði beggja ríkjanna - í kalda stríðinu! Hefði bannið verið fjármálalegs eðlis þá er samt ólíku saman að jafna með mannfjölda; á Kúbu búa nú rúmlega ellefu milljónir manna - á Íslandi rétt rúm þrjúhundruð þúsund.

c) fyrrverandi ráðherrar frá haustinu 2008 hafa engu lofað öðru en að standa við það regluverk sem EES bauð upp á - en ríkisábyrgð er hvorki innifalin í loforðunum né regluverkinu.

Fellum Icesave - semjum upp á nýtt "á viðráðanlegu verði" ef við á annað borð viljum vera almennileg við ESB apparatið og EES reglur þess.


mbl.is Getum staðið við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatn!

Þau forréttindi að búa í landi þar sem tært og ískalt vatn rennur úr krönum á hverju heimili rifjuðust upp fyrir mér í nýliðinni utanlandsferð.  Landar mínir eru "margsigldir" eins og sagt er og kannast áreiðanlega við svohljóðandi varnaðarorð í flestum löndum öðrum: "kranavatnið er ekki drykkjarhæft en talið er óhætt að bursta upp úr því tennur".

Í gær birtist grein í mbl.is með vísun til bloggs verkfræðingsins Friðriks Hansen Guðmundssonar, þar sem hann hvetur menn til þess að hafna Icesave samningnum í núverandi mynd og bjóða í staðinn greiðslur með rafmagni á þeim forsendum að ný kaplatækni komi í veg fyrir orkutap á langri leið og geri raforkuflutninginn raunhæfan.  Bráðsnjöll hugmynd!

Auðvitað er það vatnið okkar sem við nýtum til þess að skapa raforkuna - en hvað með vatnsútflutning?  Skyldi tæknin geta gert kleifan annan flutningsmáta en að tappa vatnið á flöskur?

 


Drómi Samfylkingar?

Það er Jónsmessa, sólin skín í heiði, himininn er blár og landinn ætti að gleðjast.

En það ríkir svartnætti á  alþingi, Icesave skal samþykkja með góðu eða illu á næstu dögum.  Forsætisráðherrann skartar enn þrítugri munnvikaniðurbeygjunni og utanríkisráðherrann með prakkarabrosið í ESB áróðursferð í útlöndum og sóar sjarmanum þar ytra.

Auðvitað eru þjóðmálin erfið, en fyrr má nú rota en dauðrota! 


Ísland er enn EFTA ríki

ásamt Noregi, Sviss og Lichtenstein.  EFTA ríkin eru enn virk, sbr. nýjan viðskiptasamning við Kanada.  Okkur hefur vegnað vel í EFTA en EES samningurinn mun verða okkar banabiti ef við ekki tökum í taumana.  ESB aðildardaðrið er síðan ekkert annað en punkurinn yfir það i !

Höfnum Icesave samningnum, förum dómstólaleiðina þar, segjum okkur úr EES, styrkjum stöðu okkar innan EFTA, gerum tvíhliða samning líkt og Sviss gerði og hlustum ekki á úrtöluraddir sem halda að staða þjóðarinnar meðal þjóða byggist á ESB aðild - þær sömu raddir mega útskýra stöðu Sviss meðal sömu þjóða - utan ESB.   

Erum við mýs eða menn?


Burt með óhæfa ríkisstjórn!

Icesave málið er hreint skelfilegt fyrirbæri og greinilega hefur  samninganefnd  ríkisstjórnarinnar gjörsamlega klúðrað sínu hlutverki.  Öll leyndar- og trúnaðarmál sem ríkisstjórnin bar fyrir sig upphaflega varðandi samninginn skríða smám saman upp á yfirborðið  og verða ógeðfelldari með hverri mínútunni.

Svokallaðri íslenskri ríkisstjórn mun reynast illt að eiga tvo herra og þurfa að þjóna báðum!


Að spenna beltin.

Er nýkomin heim eftir erfitt 6 klst flug og það er greinilegt að kreppan klípur víða og lánstraust landans er í lágmarki.   Þar sem flugáhöfninni tókst ekki að fá  keyptar og afgreiddar nýjar birgðir ytra fyrir heimflugið (fram og til baka fyrir áhöfnina) fór loforðið um "léttar veitingar seldar um borð" fyrir lítið. 

Fátt var ætilegt annað en afgangur af íslenskum hangikjötssamlokum frá útfluginu, kaffið uppurið jafnt fyrir áhöfn og farþega, súrefnið skammtað svo naumt í vélinni að a.m.k. einn eldri farþegi þurfti að fá auka súrefnisskammt úr neyðarkútnum - aðrir hraustari farþegar voru svo slappir að flestir móktu eða sváfu.

Eina skemmtilega endurminningin úr þessari tilteknu flugferð verður þetta afbrigði af rullunni um öryggisatriðin um borð:

"Spennið beltin og setjið á ykkur björgunarvestin áður en flugvélin lendir á sjó..."


Íslenska munstrið.

Þetta byrjar með því að ríkissjóður/almannasjóður kaupir land undir þjóðveg frá landeigendum úti í sveitum í þeim tilgangi að greiða fyrir samgöngum milli landshluta, bæði á kostnað og í þágu skattgreiðenda.

Eftir að  þjóðvegurinn hefur verið lagður kaupir fólk í kjölfarið óskipulega byggingarlönd af hinum sömu landeigendum  því fólki þykir hentugt að búa í þjóðbraut.  Smátt og smátt myndast svo þéttbýliskjarni sem heitir upphaflega ekki neitt og tilheyrir engu fyrr en íbúar á einhverju svæði eru orðnir nógu margir til þess að taka sig saman og sameinast um að mynda sveitarfélag.  Þegar svo er komið er þjóðvegurinn orðinn "fyrir" sveitarfélaginu. 

Þá rísa upp kröfur um að færa þjóðveginn frá byggðinni  sem þýðir að ríkissjóður þarf að kaupa nýtt land undir nýjan þjóðveg og síðan kaupir nýtt fólk nýjar byggingarlóðir við nýja þjóðveginn... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband