12.4.2010 | 15:26
Fækkum dýrategundum á Alþingi.
Ég er ekki einu sinni byrjuð að lesa sjálfa rannsóknarskýrsluna, en hlustaði með andagt á beinu útsendinguna af kynningunni fyrr í dag. Þvílíkt ekkisen fár!
Greinilega eru nú tvö verkefni mest aðkallandi: Að hafa uppi á þýfi bankaræningjanna og hreinsa til í pólitíkinni. Til þess að fást við hið fyrra þarf áreiðanlega að kalla til aðstoðar erlenda sérfræðinga undir yfirstjórn Evu Joly.
Hið síðara er alfarið innanlandsmál. Þar dugir ekkert minna en að leggja niður flokksmaskínur fjórflokksins. Það er ekki nóg að henda út einstökum þingmannavæflum því fjórflokkakerfið heldur bara áfram að unga út svoleiðis fólki.
Af núverandi þingmönnum sýnast þeir sem helst virðist óhætt að treysta til þess að gæta hagsmuna almennings einmitt þeir sem láta illa stýrast af flokksveldinu. Yfirmaðurinn líkir þessum þingmönnum við ketti. Gott og vel, ég geri þá slíkt hið sama:
Fjölgum köttum á Alþingi. Burt með snáka, refi og apa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:31 | Facebook
Athugasemdir
Kettir skal það vera ef það er það sem til þarf Þeir eru örfáir þarna inn á þingi en rest þarf að hypja sig út og það hið snarasta.
(IP-tala skráð) 12.4.2010 kl. 20:10
Já, ég verð hrifnari af köttum með hverjum deginum :)
Verst að hér verða engar breytingar fyrr en fjórflokksapparötin verða niðurlögð. Það er þar sem plottin grassera!
Kolbrún Hilmars, 12.4.2010 kl. 20:25
Því miður hafa ný stjórnmálaöfl ekki staðið sig vel eins og fjölmörg dæmi sýna, nú síðast þegar 4 þingmenn Borgarahreyfingarinnar gátu ekki staðið saman sem einn flokkur og jafnframt unnt hvort öðru að hafa sjálfstæðar skoðanir. Afleiðingin var sú að þeir sem kusu Borgarahreyfinguna eiga engan þingmann á Alþingi. Úr rústum þingflokksins varð til Hreyfingin (sem enginn hefur kosið hingað til) með 3 þingmenn og svo einn þingmaður utan flokka. Svona fyrirkomulag að þjóðkjörnir þingmenn geti hlaupist undan merkjum, skipt um flokka (jafnvel oft á sama kjörtímabili), stofnað nýja flokka eða gerst óháðir þingmenn, er algjörlega óþolandi. Í umboði hverra sitja svona menn á Alþingi ?
Jón Óskarsson, 13.4.2010 kl. 17:33
Sæll Jón. Mín skoðun er sú að þessir 4 þingmenn (hreyfinga eitthvað) sitji á þingi í kláru umboði kjósenda sinna. Sumir kjósendanna, sérstaklega þeir í RN, iðrast þó eflaust í dag.
En mér finnst einmitt það dæmi sérstaklega gott um hvað gerist þegar flokkur eða samtök raða fólki á lista þannig að kjósandinn þarf annað hvort að kyngja röðuninni eða hverfa frá. Útstrikanareglur eru gjörsamlega vonlausar.
Þar af leiðandi þykir kjósandanum auðvitað súrt í broti þegar hann hefur valið sér stefnuskrá - þrátt fyrir frambjóðandann- ef frambjóðandinn svíkst svo undan merkjum og gengur til liðs við einhverja aðra stefnuskrá. Hvort sem hún er hans eigin heimatilbúna eða annarra framboða.
Vonandi verða allar þessar hræringar í dag til þess að koma á einhverju vitrænu framboðskerfi. Mér dettur helst í hug að eitthvað mætti vinna með persónuframboð.
Kolbrún Hilmars, 13.4.2010 kl. 18:44
Borgarahreyfingin og Hreyfingin eru ekki sami hlutur og aðeins það fyrrnefnda bauð fram í síðustu Alþingiskosningum því eru þeir þrír þingmenn sem skiptu um flokk sem og sá fjórði sem er utanflokka, klárlega ekki að uppfylla væntingar kjósenda sinna. Inn á þing hefðu átt að koma varamenn þessara þingmanna sem sannanlega skipuðu sæti á framboðslistunum og ennþá tilheyrðu Borgarahreyfingunni.
Dæmi um það að sækja hafi þurft nokkuð langt niður eftir framboðslistum var t.d. hjá Framsóknarmönnum í borgarstjórn Reykjavíkur þegar nokkrir af frambjóðendum sögðu sig úr flokknum og því þurfti að fara niður eftir listanum í leit að varamanni til að koma inn fyrir aðalmann af lista.
Dæmi um menn á Alþingi sem flakkað hafa út og inn af þingflokkum eru Kristinn H. Gunnarsson sem prófað hefur flesta þingflokka, Jón Magnússon sem farið hefur í og úr Sjálfstæðisflokknum og í og úr Frjálslynda flokknum ásamt því að koma við sögu í fleiri framboðum, Sigurjón núverandi formaður Frjálslynda flokksins flakkaði eitthvað fram og til baka. Þetta eru bara nýleg dæmi.
Að mínu áliti er þetta algjör vanvirðing við kjósendur. Ég er ekki að setja út á einn eða annan af þessu fólki sem ég hér nefni með nafni né þá 4 sem kjörnir voru fyrir Borgarahreyfinguna, heldur að setja út á svona fyrirkomulag sem hlýtur að vera eitthvað bogið við.
Ef um persónukjör væri að ræða þá væri lítið við þessu að segja því þá fylgdu væntanlega fylgismenn viðkomandi þingmanns honum þó svo að hann færðist til hægri eða vinstri innan þings, en þar sem verið er að kjósa framboðslista í þingkosningum þá er svona flakk manna óþolandi og ætti ekki að líðast, heldur ætti næsti maður á listanum að koma inn og viðkomandi einstaklingur af fara af þingi og bjóða sig svo bara fram undir nýjum merkjum í næstu kosningum.
Jón Óskarsson, 13.4.2010 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.