Hver á Palestínu?

Þeir eru margir sem ekki halda vatni yfir frekju Ísraelsríkis gagnvart aröbum í Palestínu nútímans.  Ég get tekið undir margt af því, svo sem óhóflega landtöku ísraela umfram það sem þeim var upphaflega skammtað; réttlátlega 50-50. 

En hvorug þjóðin sem hefur þraukað í Palestínu gegnum aldirnar hefur meiri rétt en hin, og báðar hafa sameiginlega þurft að þola óþolandi erlend langtíma yfirráð og væri nær að standa saman loksins þegar þær hafa tækifæri til þess að spjara sig sjálfstætt. 

2700 BC  Egyptar réðu yfir landssvæðinu - þar til
1025 BC  Ísrael stofnaði sitt konungdæmi sem entist - þar til
650 BC    Babýlóníumenn hertóku svæðið - þar til
500 BC    Persar tóku yfir - þar til
350 BC    Hellenar (Alexander mikli) tóku yfir - þar til
50 BC     Rómverjar (Heródes ofl) tóku yfir - þar til
490 AD   Byzantíumenn tóku yfir - þar til
640 AD   Múslimar yfirtóku (Ómar kalífi) - þar til
1065 AD Tyrkir tóku yfir - þar til
1259 AD  Mongólar höfðu stutta viðdvöl - þar til
1270 AD Tyrkir tóku völdin aftur og réðu yfir Palestínu - þar til
1917 AD  Bretar sigruðu Tyrki í Palestínu (WW1) og héldu yfirráðum - þar til
1947 AD  Bretar afsala sér yfirráðum til Sameinuðu þjóðanna.
The rest is history - eins og enskumælandi orða það svo réttilega. 

En merkilegt nokk; loksins þegar erlendu yfirráðin hafa horfið frá og gefið þeim frítt spil þá hafa þessar tvær þjóðir í gömlu Palestínu ekkert annað betra að gera en drepa hvor aðra. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki nokkur leið að toppa þetta hjá þér Kolla mín

(IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 22:58

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hot spring river Palestínu? Samkvæmt sáttmála SÞ, Ísrelsmenn 55% og Palestínumenn 45%. Formaður sáttanefdar um málið var Thoir Thors fastafulltrúi Íslands hjá SÞ.

Málið varðar okkur því einnig í sögulegu samghengi.

Ræða Thor Thors fulltrúa Íslands hjá SÞ
 um Palestínumálið á allsherjarþinginu
 29. nóvember 1947

Herra forseti.

Í umræðunum í gær voru það þrír fulltrúar — fulltrúi frá Pakistan, fulltrúi frá Íran og fulltrúi frá Frakklandi — og í dag fulltrúi frá Líbanon, sem minntust á sáttanefnd, sem skipuð var af Palestínunefndinni. Þessi sáttanefnd var skipuð 3 fulltrúum, formanni Palestínunefndarinnar, Dr. Evatt, fulltrúa frá Síam og mér. Forusta og aðalábyrgð var hjá okkar duglega formanni. Því miður hefur Dr. Evatt orðið að fara heim til sín í Ástralíu. Ég get ekki látið hjá líða að geta þess, að athugasemdirnar út af því, að sáttatilraunirnar hefðu ekki verið nægilega reyndar, hefðu verið tilhlýðilegri ef Dr. Evatt hefði verið viðstaddur hér. Það var hægt á öllum tímum að koma fram þessum athugasemdum í Palestínunefndinni.

Má ég nú gefa skýrslu um það, sem Dr. Evatt sagði í Palestínunefndinni 19. nóvember 1947? Á 23. fundi nefndarinnar spurði fulltrúi frá Venesúela: "Nefndin kaus hér þrjár undirnefndir, ekki aðeins tvær heldur var sú þriðja skipuð til að koma á sáttum. Þessi 3ja nefnd var skipuð samkvæmt tillögu frá fulltrúa Venesúela og var ætlast til þess að hún talaði við báða þessa aðila í deilunni. Ég leyfi mér allra virðingarfyllst að spyrja formanninn hvað nefndin hafi gert í þessu máli og ég er honum þakklátur fyrir ef hann vildi skýra frá árangrinum?"

Formaðurinn sagði: "Það eina, sem ég get sagt nú er það, að ég og félagar mínir, varaformaður nefndarinnar, fulltrúi Síam og ritari nefndarinnar, fulltrúi Íslands, hafa ekki gleymt okkar skyldu. Við reyndum að fá aðilana til að talast við, en eðli okkar tilrauna var slíkt, að ég má ekki gera opinber svörin, sem við fengum, eða þau tilmæli, sem okkur bárust og þessu fór fram allan tímann. En í sannleika sagt eftir þeim svörum að dæma, sem við fengum, var mér það augljóst, að það mátti heita útilokað, að málinu yrði ráðið til farsælla lykta. En það er víst, að fram að þessari stundu höfum við haft í frammi alla viðleitni, sem hugsast gat. Við skrifuðum nokkur bréf í samræmi við óskir allsherjarnefndarinnar, en ég áleit að það mundi aðeins gera málið erfiðara ef ég færi lengra en að skýra frá því, að okkur fannst verkefni okkar vera örlagaríkt og að við hefðum ekki vanrækt það."

Hinn 22. nóvember, á 28. fundi nefndarinnar, gaf Dr. Evatt aðra skýrslu til svars við athugasemdum frá fulltrúa El Salvador: "Ég hygg að Hr. Castro hafi ekki verið viðstaddur á fundi nefndarinnar þegar ég skýrði henni frá því, sem gerst hafði í sambandi við tilraunir okkar til að sætta aðila þessa máls. Varaformaður nefndarinnar, ritari og formaður hennar rannsökuðu málið frá öllum sjónarmiðum. Við komumst að þeirri niðurstöðu að fram til þessarar stundar væri ekkert frekara unnt að gera. Það var vegna þess, að samkomulagi milli aðila var svo erfitt að ná, að þetta mál var lagt fyrir S.þ. Mér sjálfum var það ljóst, að sættir gátu ekki náðst, þrátt fyrir tilraunir okkar, fundahöld og bréfaskriftir, fyrr en þessi nefnd, sem féll undir allsherjarþingið, hefði tekið sína ákvörðun."

Af þessu má fulltrúunum vera ljóst, að allar tilraunir til þess að koma á sáttum virtust fyrirfram dauðadæmdar. Báðir aðilar héldu fast við sitt, hvor um sig trúði því fastlega, að hans málstaður mundi sigra, annað hvort í nefndinni eða á allsherjarþinginu.

Sáttanefndin fylgdist nákvæmlega með því, sem gerðist, bæði í undirnefnd 1 og undirnefnd 2. Til allrar óhamingju virtist bilið milli aðila of breitt til þess að það yrði brúað friðsamlega. Arabar virtust ekki vilja fallast á fjöldainnflutning Gyðinga, né að veita sjálfstæði ríki Gyðinga í Palestínu. Gyðingar vildu ekki sætta sig við neitt minna en nokkurn veginn frjálsan innflutning og vonir um sjálfstæði. Milli þessara tveggja andstæðna var ekki unnt að koma á neinum sáttum á meðan þetta vandamál var til meðferðar hjá Sameinuðu þjóðunum.

Rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna í Palestínumálinu, snéri sér margsinnis til Stórráðs Araba og leitaði samvinnu þess, vegna starfs nefndarinnar, en því var neitað. Í Palestínunefnd þessa þings, sagði fulltrúi Stórráðs Araba, að hann mundi því aðeins taka þátt í starfi hennar, að fallist væri á stofnun eins sjálfstæðs ríkis, en ekki að því er snertir tillögur rannsóknarnefndarinnar, - hvorki meiri hluta hennar né minni hluta.

Enn á ný í undirnefnd 1 í Palestínunefnd þessa þings, var Stórráði Araba boðið að taka þátt í ákvörðun nefndarinnar, að því er snerti hin nýju landamæri hinna tveggja ríkja innan Palestínu, en aftur var svarið það, að ráðið vildi aðeins taka þátt í umræðum um stofnun eins allsherjarríkis í Palestínu.

En nú á síðustu stundu, rétt í því að verið er að ganga til atkvæðagreiðslu kemur fram athugasemd um starf sáttanefndarinnar og það er jafnvel gefið í skyn, að sættir hefðu verið hugsanlegar. Hitt er þó vitað, að sáttanefnd reyndi allar leiðir, en árangurslaust. Ennfremur er það ljóst að fram til síðustu stundar höfðu engin ákveðin tilboð eða tillögur um sættir eða samkomulag legið fyrir.

Mér virðist nú, að það kunni að vera hugsanlegt að fyrst eftir að Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið sína föstu ákvörðun og þegar að báðir aðilar verða að horfast í augu við blákaldar staðreyndir, að þá geti augnablik sáttanna runnið upp en fyrr ekki. Ég vona í lengstu lög, að skynsemi foringja beggja aðila geri þeim það ljóst, að það er betra fyrir þá að búa saman sem góðir nágrannar, heldur en að eiga það á hættu, að hvor út af fyrir sig eigi að tortímast. Það ætti að vera ein af aðal skyldum þeirrar nefndar, sem nú verður kosin til að stjórna Palestínu á næstu mánuðum, að leita allra ráða til að koma á sáttum milli þjóðanna í landinu helga.

***************

Allsherjarþingið samþykkti, að Palestínu skyldi skipt í tvö sjálfstæð ríki, ríki Araba og ríki Gyðinga. Var sú samþykkt gerð með 33 atkvæðum gegn 13, en 10 sátu hjá. Ísland greiddi atkvæði með skiptingu landsins.

Þessi lönd voru fylgjandi: Ástralía, Belgía, Bólivía, Brasilía, Hvíta Rússland, Kanada, Costa Rica, Tékkóslóvakía, Danmörk, Dóminikanska Lýðveldið, Ekvador, Frakkland, Guatemala, Haiti, Ísland, Líbería, Lúxemborg, Holland, Nýja Sjáland, Níkaragua, Noregur, Panama, Parugay, Perú, Filippseyjar, Pólland, Svíþjóð, Úkraína, Suður-Afríka, Sovétríkin, Bandaríkin, Uruguay og Venesúela.

Þessi lönd sátu hjá: Argentína, Kína, Chile, Kólumbía, El Salvador, Eþíópía, Hondúras, Mexíkó, Stóra-Bretland og Júgóslavía.

Þessi lönd greiddu atkvæði á móti: Afganistan, Kúba, Egyptaland, Grikkland, Indland, Íran, Írak, Líbanon, Pakistan, Saudi-Arabía, Sýrland, Tyrkland og Yemen.

***************

  Íslandi var boðið sæti í nefnd hinna 5 ríkja, sem stjórna á Palestínu uns gengið er frá stofnun hinna nýju ríkja. Áður en gengið var til kosninga í nefndina á allsherjarþinginu, var tilbúinn listi af hendi Bandaríkjanna, er Sovétríkin höfðu samþykkt og var Ísland á þeim lista. Samkvæmt viðtali fulltrúa Íslands við utanríkisráðherrann í Reykjavík, færðist Ísland undan því að taka sæti í nefndinni, en að okkur frágengnum var Noregi boðið sæti. Þar sem Noregur færðist einnig undan því, varð Danmörk fyrir valinu í nefndina, enda höfðu bæði fulltrúi Íslands og Noregs hvatt fulltrúa Danmerkur til að taka sæti í nefndinni.

Svanur Gísli Þorkelsson, 14.1.2009 kl. 17:21

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þakka þér fyrir Svanur, fyrir að skýra enn betur Palestínuvandann.

En skiptingin kemur mér þó á óvart; mér skildist á þeim gögnum sem ég fletti upp að hún hefði átt að vera jöfn, en þú nefnir 55/45.  Var það vegna mannfjölda eða einhvers annars? 

Við stofnun Ísraelsríkis var manntal ríkisins 760 þúsund, og það áður en eftirlifandi gyðingar frá Evrópu flykktust þangað í stórum stíl.  Engar staðfestar upplýsingar fann ég um fjölda arabanna sem áttu að fá hinn helming landsins, en hef séð nefndar svipaðar tölur; 700-800 þúsund.  Gæti það verið nærri lagi?

Kolbrún Hilmars, 14.1.2009 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband