Veiðigjald hér eða þar

Þessa dagana er í gangi undirskriftasöfnun á móti niðurfellingu "sérstaks" veiðigjalds sem um það bil 30 þúsundir hafa skrifað undir.   Þetta veiðigjald mun ekki verða innheimtanlegt samkvæmt "kerfinu" en undirskriftaraðilar vilja samt að svo verði gert. 

Samkvæmt fréttum eiga 3/4 þeirra sem skrifa nöfn sín á þennan lista lögheimili í RN og RS.

Í vor fékk ég bréf, sem frambjóðandi til þingkosninga, frá Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga.  Þessi samtök gera enga kröfu til þess að koma að ákvörðunum um útreikninga og upphæðir í sambandi við veiðigjaldið.   En gefum samtökunum orðið:

"Störfum í veiðum og vinnslu fækkaði mikið á síðustu öld og fækkar enn.  Mest gerist það fyrir áhrif tæknibreytinga þar sem mannshöndin er leyst af hólmi með ýmiskonar vélbúnaði og nú síðari ár einnig vegna lagabreytinga.  Þannig leiddi setning laga um kvótakerfið til mikillar hagræðingar í sjávarútvegi með tilheyrandi fækkun starfa og röskun á búsetuforsendum.  Ekki var reynt að meta þessi áhrif fyrirfram eða hvort unnt væri að beita formlegum mótvægisaðgerðum vegna fækkunar starfa og þar með fækkun íbúa sjávarbyggðanna."

"Með sérstaka veiðigjaldinu sem var lögfest vorið 2012 var enn hert á kröfunni um hagræðingu í greininni.  Þess mun sjá stað með fækkun báta, fækkun fyrirtækja og þar með fækkun starfa, rétt eins og gerðist þegar hagræðingin sem fylgdi kvótakerfinu fór að hafa áhrif.  Einnig verður svigrúm fyrirtækjanna til fjárfestinga í heimabyggð minna.  Nú geta menn séð þetta fyrir, umfang gjaldsins er þekkt.  Það er ljóst að samfélagið í heild hagnast á hagkvæmum sjávarútvegi en það eru sjávarbyggðirnar sem greiða fyrir þá hagræðingu með fækkun starfa, og í framhaldinu fækkun íbúa.  Okkar krafa er sú að ríkisvaldið kannist við afleiðingar þess að svo stór hagræðingarkrafa er sett á greinina og að brugðist verði við.   Krafan er sú að sjávarútvegssveitarfélögin fái hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu."

Að öðrum ólöstuðum, þá þætti mér nær að fólk sameinaðist  um undirskriftalista til stuðnings þeim sveitarfélögum sem eiga líf sitt undir sjávarútvegi - og jafnvel hlutdeild í veiðigjaldinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nákvæmlega Kolbrún, það er einmitt mergurinn málsins, þetta veiðigjald fer illa með lítil og meðalstór útgerðarfélög.  Það þarf að binda veiðar og vinnslu meira við sjávarbyggðirnar þar sem fiskurinn veiðist.  Og að sveitarfélögin fái hlutdeild í veiðiheimildum.  Það þarf að verða hvati sjávarbyggðana til að hafa áhrif á hvernig þeim gróða er varið, og að þar sé gætt réttar heimamanna í hvívetna. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.6.2013 kl. 01:34

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ásthildur, að slepptu þessu réttlætismáli varðandi veiðigjaldið þá þarf  - eins og þú segir, að tengja veiðiheimildir við sveitarfélögin.  En það er reyndar kvótamál.

Bréf samtakanna er mun lengra en sá útdráttur sem ég birti hér að ofan, en þar er líka bent á að þótt sjávarútvegurinn sé sjálf undirstaðan að lifibrauðinu þá eru afleidd störf ekki síður mikilvæg.

Kolbrún Hilmars, 22.6.2013 kl. 13:01

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið rétt Kolbrún.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.6.2013 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband