Hvert er hlutverk lífeyrissjóða?

Fyrir rúmlega 40 árum fór ég fyrst, ásamt vinnuveitanda mínum, að greiða mánaðarlega framlag til lífeyrissjóðs.  Þá var fullyrt  að þar með væri ég að leggja inn sparnað til þess að  tryggja velferð mína í  ellinni - sem ég og gerði og sló jafnframt af launakröfunum vegna mótframlags vinnuveitanda míns.

Á þeim tíma snerist þetta semsagt  um einkasparnað í lífeyrissjóð en enginn nefndi "samtryggingu" á nafn.  Þetta keyptum við,  þau okkar sem sparnaðinn völdum, sjálfviljug.  

Það var svo ekki fyrr en rétt fyrir síðustu aldamót að lífeyrissparnaðurinn var lögfestur og öllum gert skylt, með góðu eða illu, að greiða í lífeyrissjóð.

Í dag  er ég hreint ekki viss um að lífeyrisframlagið mitt öll þessi ár svari kostnaði.  Ef ég á annað borð fæ eitthvað greitt úr lífeyrissjóðnum, þá skerðast ellilífeyrisbætur frá TR samsvarandi.  Samt á ég fullan rétt þar líka sem skattgreiðandi launþegi þessa áratugi.

Miðað við nýjustu taptölur lífeyrissjóðanna,  þá er ég farin að halda að hlutverk lífeyrissjóða hafi frá upphafi verið að "samtryggja" forkólfa þeirra; skaffa þeim ofurlaun  og fríðindi sem hinum almenna launþega hefur aldrei staðið til boða.   Auk ókeypis spilapeninga í fjármálalottóinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þú ert ekki ein um að gruna forkólfana um að "samtryggja" sjálfa sig.

Ragnhildur Kolka, 7.2.2012 kl. 19:11

2 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

sammála síðasta ræðumanni

Jón Snæbjörnsson, 7.2.2012 kl. 19:18

3 Smámynd: Jón Óskarsson

Algjörlega sammála þér Kolbrún.   Þetta er samtryggingakerfi um að tryggja forkólfum samtaka atvinnurekenda og samtaka launafólks viðbótartekjur og völd.   Launin innan sjóðanna eru og hafa verið langt út fyrir öll velsæmismörk.   Ég hef haldið þeirri skoðun fram áður að meðallaun starfsmanna lífeyrissjóðanna ættu aldrei að vera hærri en meðallaun þeirra launþega sem greiða til viðkomandi sjóðs.

Samspil á milli lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum og almannatryggingakerfinu er þannig að maður sem haft hefur bara mjög góð laun yfir ævina og greitt ca 40-45 ár í lífeyrissjóð getur átt von á að fá u.þ.b. 11.000 krónur á mánuði meira, en maður sem aldrei hefur greitt krónu í lífeyrissjóð.

Þetta er náttúrulega ekki í lagi.

Jón Óskarsson, 7.2.2012 kl. 20:49

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Takk fyrir innleggin, ég sé að þið eruð með á nótunum 

Svo ég haldi nú áfram með persónulega reynslu varðandi lífeyrissjóðsmálin,  þá átti ég einu sinni eiginmann sem dó á "skökkum tíma" eftir að hafa greitt í 30 ár í sinn lífeyrissjóð.  Þegar ég segi "skakkur tími" á ég við að börnin hans voru orðin of gömul og konan of ung samkvæmt reglum  lífeyrissjóðsins til þess að eiga rétt á "samtryggingarlífeyri".  

Lífeyrissjóðurinn gerðist þar með sjálfskapaður einkaerfingi hans.

Kolbrún Hilmars, 7.2.2012 kl. 21:15

5 Smámynd: Jón Óskarsson

Þekki þetta á eigin skinni, eða svo gott sem.   Faðir fyrrum sambýliskonu "tók upp á því að veikast af krabbameini, sem dró hann til dauða á innan við 3 mánuðum eftir að það uppgötvaðist".  Þessi einstaklingur var ekki fjáður maður, en átti "góð" réttindi í lífeyrissjóði.   Þegar ég var að vinna í hans málum þá rakst ég á marga veggi hjá lífeyrissjóðnum hans, meira að segja Tryggingastofnun var bara þjónustulundað fyrirtæki og gerði það sem þeirri stofnun bara, nokkuð fljótt og vel en það sama varð ekki sagt um lífeyrissjóðinn.   Enda fór það svo að sjóðurinn eignaðist allt hans fé og sólundaði því í hlutabréfakaup í einhverju flugfélagi sem ekki reyndist vera til í Bretlandi.   En forstjóri sjóðsins var svo "elskulegur" og "tillitssamur" að segja við mig "að hann hefði bara dáið of snemma" og það hreinlega hlakkaði í honum við þessa setningu.  Það vantaði nefnilega 2 daga upp á að hægt væri að fá fáeinar krónur, sem hefðu kannski dugað fyrir einfaldri kistu úr sjóðnum.  Ég hef ekki litið stjórnendur lífeyrissjóða sömu augum síðan.

Jón Óskarsson, 7.2.2012 kl. 22:29

6 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Takk fyrir þitt innlegg Kolbrún..Ég varð sjötugur í Nóvember og um leið hætti ég að vinna búinn að standa við eldamensku frá 16ára aldri og hef borgað í Líf eyrisjóð síðan hann tók til starfa 1970 og ég get ekki séð að ég geti haft það gott í ellini með þeim greiðslum sem ég fæ úr Lífeyrisjóðnum. En þeir hafa það anskoti got sem eru stjórnendur Lífeyrissjóðana,til dæmis Arnar Sigmunsson sem er talsmaður þeirra með 2,5miljónir á mánuði..

Vilhjálmur Stefánsson, 7.2.2012 kl. 23:24

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er alveg ótrúleg svik og prettir og því miður lögverndaðir af ríkinu á okkar kostnað.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.2.2012 kl. 15:59

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæl öll aftur. 

Eins og Vilhjálmur segir - og Jón einnig vegna tengdaföður síns, þá höfum við öll sem völdum lífeyrissparnaðinn 1970, árið sem sparnaðurinn varð valkostur, verið svikin.  Þeir sem létust "of snemma" fá ekki neitt, þau okkar sem enn tóra fá heldur varla neitt. 

Fjörutíu ára sparnaður, 10% af mánaðarlaununum, með vöxtum og vaxtavöxtum, er glataður eða svo gott sem.  

Eins og Ásthildur segir réttilega; lögvernduð svikastarfsemi.

Kolbrún Hilmars, 8.2.2012 kl. 19:10

9 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Tek undir með síðuhaldara.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 10.2.2012 kl. 08:34

10 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sparnaðurinn varð „valkostur“ (val og kostur þýða hið sama) fyrr. Ég gekk í lífeyrissjóð 1961. Í sambandi við lífeyrissjóðina var gerð uppstokkun á þeim í samhengi við launasamninga verkalýðsins um 1970 sem mér skilst að hafi til lengdar gert það kleift fyrir stjórnmálamenn að láta þá yfirtaka hlutverk almannatrygginga, sem í upphafi stóð alls ekki til. En öfugt við þá sem vilja láta alla lepja sama dauðann úr sömu skel vil ég að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna okkar hafi góð laun sem geri þeim kleift að vinna sjóðunum af alhug og heilindum, til hagsbóta fyrir okkur öll. Og ég vil gera skýran greinarmun á skyldum lífeyrissjóða við eigendur sína og skyldum almannatrygginga við þá sem hafa greitt í þá alla sína starfsævi. -- Lögvernduð svik? Svikin koma frá löggjafanum sem hlunnfara okkur vegna réttinda okkar í sjóðunum.

Sigurður Hreiðar, 11.2.2012 kl. 16:14

11 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þar að auki, Kolbrún, vona ég heitt og innilega að slagsíða lífeyrisréttinda vegna skerðingarhugmynda og ákvæða stjórnmálamanna til að halda frá okkur áunnum réttindum í almannatryggingum verði liðin undir lok þegar að þér kemur að þiggja þín eftirlaun úr lífeyrissjóðnum þínum sem þá verði búinn að rétta úr kútnum eftir hrunið. Því hrunið var bölvaldur nr. 1. Það gleymist finnst mér í þeim kaffibollastormi sem nú geysar um tap lífeyrissjóðanna að á þeim tíma sem tap þeirra var mest voru allir að tapa. Líka þeir sem nú eru svo andskoti fróðir um hvaða „vitleysu“ allir hinir voru þá að gera. Fyrirgefið mér þó það fari talsvert í taugarnar á mér hvað allir eru tilbúnir að vera dómharðir og alvirtir í þessu samhengi.

Sigurður Hreiðar, 11.2.2012 kl. 16:19

12 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sigurður, þakka þér fyrir innleggin.  En sparaðu samt þína dómhörku gagnvart mér og öðrum sem þú segir að sýni dómhörku og alvitru í þessu samhengi.  

Þar kemur tvennt til:

1) Þú hefur ef til vill tekið eftir því að þau okkar sem hæst höfum um svikin erum ýmist komin á "eftirlaunin" eða rétt í þann mund að njóta þeirra.  Sjálf kemst ég á þennan draumaaldur eftir 2 ár.  

Er það ekki bara skolli gott ef ég fæ 10 þúsund kall á mánuði úr lífeyrissjóði?   Mitt heimili greiddi 20% af launatekjum í lífeyrissjóð í heil 30 ár.  10% eftir að hin fyrirvinnan féll frá.  Þetta var auðvitað sjálfskaparvíti því lífeyrissparnaðurinn var frjáls og loforðin lygi!

2) Börnin mín eru sitt hvoru megin við fertugt og komin hálfa leiðina í mína aðstöðu; að tapa öllu sínu  - jafnvel til þess að bæta upp mitt tap.  Þótt ég tapi (hvort sem er) öllu mínu  vil ég að þeirra lífeyrissparnaður skili sér réttlátlega þegar þar að kemur.  

Þess vegna er ég að röfla og sýna "dómhörku".

Kolbrún Hilmars, 11.2.2012 kl. 21:40

13 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Nei, Kolbrún, það er ekki skolli gott ef þú færð bara 10 þúsund kall á mánuði úr lífeyrissjóði. Miðað við það sem ég þekki til ættir þú að fá gott betur en það og er ég þó ekki að hrópa húrra fyrir því. Veit reyndar ekki hvað þú hefur unnið en mér nærtækt dæmi er um manneskju sem vann við opinbera stofnun og byrjaði ekki að greiða í lífeyrissjóð fyrr en það varð skylda, 1989 að mig minnir, og náði aldursmarkinu 2007 og fær nú um 120 þús á mánuði út lífeyrissjóði. Sem ég er heldur ekkert að hrópa húrra fyrir en það má heldur ekki gera of lítið úr því sem er. Dómharka mín snýst að því hvað mér þykir fólk einfalda hlutina og grípa á lofti það sem hæst er gasprað án þess að rýna á bak við það.

Sigurður Hreiðar, 11.2.2012 kl. 22:56

14 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þakka þér aftur, Sigurður.  Ég var líklega of hvöss við þig, að ósekju, en er búin að heyra svo margar sorgarsögur undanfarið og búin að fá óréttlætið upp í kok.

Hvað mig sjálfa varðar er þetta sjálfskaparvíti eins og ég sagði áður; hef lengst af starfað í fjármálageiranum, með 7 ára hliðarhoppi í stéttarfélagageiranum, oftast með lagabálkana mér við hlið, og stæri mig gjarnan af því að hafa lært að leggja saman 2+2 og fá út 4.  En í þessu persónulega lífeyrissjóðadæmi klikkaði ég. 

Við getum bara einfaldlega sagt í þessu sameiginlega skipbroti; það er ekki sætt heldur súrt!  Og ef við getum ekki breytt neinu fyrir okkur sjálf, þá mögulega fyrir börnin okkar!

Kolbrún Hilmars, 11.2.2012 kl. 23:20

15 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sigurður, ég vona að þú lesir þetta síðbúna "auka"svar, en ég gleymdi að svara þér varðandi lífeyri opinberra starfsmanna.

Hið opinbera hefur greitt 11,5% mótframlag í stað þeirra 6% sem lengst af giltu á almenna vinnumarkaðnum. (Að undanteknum örfáum síðustu árum þegar mótframlagið hækkaði - fyrst í 7% og síðan 8%.)

Eðlilega fá því opinberir starfsmenn hærri lífeyri en við hin.

Kolbrún Hilmars, 12.2.2012 kl. 15:52

16 Smámynd: Jón Óskarsson

Allir þeir sem tala um að við fáum þessa eða hina fjárhæðina úr lífeyrissjóði gleyma algjörlega því að búið er að flétta svo rækilega saman almannatryggingakerfið, lífeyrissjóði, séreignarlífeyrissjóði og skattakerfið að það er nánast sama hvað við höfum lagt á okkur að greiða í sjóðina að flest lendir í krónu á móti krónu skerðingu.   Síðan er alveg bannað að sýna fyrirhyggju og leggja fyrir á bankareikninga, sér í lagi á verðtryggða reikninga, því fjármagnstekjurnar (jafnvel þó þær séu neikvæðar) þar með talið síðan einnig verðbætur eru látnar bitna á fullum þunga á eftirlaunaþegum.   Samtryggingarkerfið virðist snúast um það að gera alla jafn fátæki í ellinni, en ekki að þeir sem eyddu ekki um efni fram og spöruðu hafa það eitthvað skár en aðrir.     Þannig er það að líklega færð þú kannski 10 þúsund meira á mánuði Kolbrún eftir að hafa greitt mest alla ævi í lífeyrissjóði, en ef þú hefðir aldrei greitt í lífeyrissjóð.   Að auki ef þú átt séreignarsparnað þá borgar sig að taka hann út nú þegar, en ekki að nýta hann samhliða öðrum ellilífeyri, því þá skerðist sá hluti sem nemur um 80% (að meðtöldum sköttunum), þ.e. fyrir hvern 20.000 kall brúttó færðu 4.000 í vasann.  Þetta er veruleikinn sem blasir við og þeir sem varið hafa lífeyrissjóðina hafa ekki viljað segja okkur og eru enn að reyna að telja okkur trú um annað.   Ég verð að játa það að ég taldi ekki að þetta væri svona, og mér hefur framundir þetta þótt algjör fásinna að taka út séreignarsparnaðinn löngu áður en kemur að eftirlaunaaldri, en það er sennilega bara skynsamlegt, því nú greiða menn þó ekki nema bara staðgreiðsluskatt af þessu og skerðast að öðru leiti ekki.

Jón Óskarsson, 14.2.2012 kl. 19:03

17 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þakka þér fyrir, Jón.  Einmitt gagnlegt að benda á þetta með séreignarsparnaðinn; að taka hann út áður en kemur að lífeyrisgreiðslum með tilheyrandi skerðingum.

Sjálf er ég búin að innleysa minn séreignarsparnað - það er heimilt  eftir að sextugsaldri er náð.

Kolbrún Hilmars, 15.2.2012 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband