7.2.2012 | 18:46
Hvert er hlutverk lífeyrissjóða?
Fyrir rúmlega 40 árum fór ég fyrst, ásamt vinnuveitanda mínum, að greiða mánaðarlega framlag til lífeyrissjóðs. Þá var fullyrt að þar með væri ég að leggja inn sparnað til þess að tryggja velferð mína í ellinni - sem ég og gerði og sló jafnframt af launakröfunum vegna mótframlags vinnuveitanda míns.
Á þeim tíma snerist þetta semsagt um einkasparnað í lífeyrissjóð en enginn nefndi "samtryggingu" á nafn. Þetta keyptum við, þau okkar sem sparnaðinn völdum, sjálfviljug.
Það var svo ekki fyrr en rétt fyrir síðustu aldamót að lífeyrissparnaðurinn var lögfestur og öllum gert skylt, með góðu eða illu, að greiða í lífeyrissjóð.
Í dag er ég hreint ekki viss um að lífeyrisframlagið mitt öll þessi ár svari kostnaði. Ef ég á annað borð fæ eitthvað greitt úr lífeyrissjóðnum, þá skerðast ellilífeyrisbætur frá TR samsvarandi. Samt á ég fullan rétt þar líka sem skattgreiðandi launþegi þessa áratugi.
Miðað við nýjustu taptölur lífeyrissjóðanna, þá er ég farin að halda að hlutverk lífeyrissjóða hafi frá upphafi verið að "samtryggja" forkólfa þeirra; skaffa þeim ofurlaun og fríðindi sem hinum almenna launþega hefur aldrei staðið til boða. Auk ókeypis spilapeninga í fjármálalottóinu.