29.12.2011 | 18:16
Snjór og meiri snjór
og sér ekki fyrir endann á samkvæmt veðurspánni.
Hvað varð um hina hnattrænu hlýnun, sem er talin svo alvarleg að hún er orðin féþúfa stjórnvalda hérlendis og í ESB?
Eða er almættið aðeins að uppfylla óskir þeirra sem þola ekki jól nema þau séu hvít? Ég segi nú bara eins og maðurinn forðum; hafðu vara á óskum þínum - þær gætu ræst.
Það er alla vega aðeins sanngjarnt að fá afslátt á kolefnisgjaldinu. Eða fá fyrir það aðstoð við snjómoksturinn. Er búin að moka útitröppurnar tvisvar í dag með sama árangri og Bakkabræðra þegar þeir báru sólina inn í húfunum.
Svo hafa snjóruðningstæki á götu og gangstétt myndað samsæri um að fela litla sparneytna bílinn minn í snjóskafli. Sennilega þarf ég að huga að því að fjárfesta í öflugum jeppa.
Ætli það fáist harðbýlisstyrkur út á jeppakaupin þegar hnatthlýnunin hefur klikkað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Æ já þið þarna fyrir sunnan eruð auðvitaö óvön öllum þessum snjó. Vonandi fer hann samt fljótlega.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.12.2011 kl. 22:38
Ég hafði afvanist honum,en stjórendur leggja áherslu á að fólk hjóli í vinnuna,gott ráð.
Helga Kristjánsdóttir, 30.12.2011 kl. 02:47
Ásthildur, ég þoli ekki snjó. Sennilega vegna þess að ég er eiginlega alin upp á skíðum, en á Austfjörðunum voru skíðin helsta samgöngutækið á veturna. Semsagt búin að fá minn lífstíðarskammt af snjó fyrir löngu síðan
Helga, það er nú ekki björgulegt að hjóla þessa dagana
Kolbrún Hilmars, 30.12.2011 kl. 09:56
Ókey skil þig Kolbrún mín. Ég tek honum með stóískri ró aftur á móti. En það er líka út af því að hann ver gróðurinn fyrir kali og sliku. En ég vona að þið losnið við hann sem fyrst.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.12.2011 kl. 12:43
Þakka þér fyrir samúðina, Ásthildur. Reyndar hlífir snjórinn fleiru en gróðrinum. Það var alltaf snjóþungt í mínu plássi eystra og mér er minnistætt þegar nýlegur vörubíll föðurbróður míns hvarf undir snjó að hausti og varðveittist þar vel til vors.
Okkur krökkunum var svo uppálagt að hoppa ekki og leika okkur á því svæði þar sem bíllinn var undir.
Svo gleymi ég heldur aldrei fyrstu norrænu skíðalandsgöngunni sem ég tók þátt í; 6 ára á 5 kílómetrunum og komst áfallalaust í mark
Reyndar væri mér sama þótt ég sæi aldrei snjó aftur...
Kolbrún Hilmars, 30.12.2011 kl. 17:21
Æ ljúfan mín, snjór verður í okkar lífi meðan við búum hér, og ég er ekkert á förum snjór eða ekki snjór
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.12.2011 kl. 17:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.