2.6.2010 | 19:26
Sagan endalausa.
Enn og aftur er Ísrael í sviðsljósinu. Svo hefur verið síðan í maí 1948 þegar Ísraelsríki var stofnað undir handarjaðri Sameinuðu þjóðanna.
Árið 1947 ályktuðu SÞ um skiptingu Palestínu milli þjóðarbrotanna tveggja; gyðinga og araba í því skyni að skapa eftirlifandi gyðingum Evrópu heimaland meðal kynbræðra sinna þar um slóðir eftir útrýmingarherferð nazista.
Í upphafi var hvorki landssvæðið álitlegt né þjóðfélagsskipun íbúanna nútímaleg; höfðu enda verið undir hæl nýlenduþjóða hátt í þúsund ár samfleytt. En þarna flykktust að gyðingar sem fluttu með sér vestræna tækniþekkingu og vestræn samfélagsviðhorf. Þeir lögðu til atlögu við eyðimörkina, upphaflega á einöngruðum ræktunarsvæðum, svonefndum kibbutz. Gyðingarnir breyttu sandflæmunum í gróðurvinjar með vatnsáveitum og fráveitum með aðstoð tækninnar. Þar með myndaðist það menningarlega hyldýpi sem skilur á milli hirðingjasamfélags og tæknisamfélags. Það er eiginlega algjör óþarfi að skella skuldinni á trúarbrögðin því arabar og gyðingar hafa yfirleitt komið sér saman þrátt fyrir þau. Það eru mismunandi menningarviðhorf sem aðskilur. Palestínuþjóðirnar tvær eru þó nú orðið samsekar; hvor um sig reynir allt til þess að fjarlægja hina og engin málamiðlun virðist möguleg.
Til þess að undirstrika mína einfölduðu söguskoðun á Palestínu hér að ofan vil ég minna á sambærilega aðgerð. Í október 1949 var stofnað annað nýtt ríki þar sem íbúarnir voru landfræðilega klofnir í tvennt. Þetta var DDR; þýska alþýðulýðveldið. Við þekkjum öll þá sögu og sögulokin líka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.