15.9.2012 | 16:46
Verðmyndun í innflutningi
Því hefur verið lofað að ef íslendingar gangi í ESB muni matvöruverð lækka umtalsvert.
Reyndar ekki neinar þær vörur sem stundum eru kallaðar "staples", eða grunnvara. Svo sem kornvörur, hrísgrjón, salt, sykur, kaffi, kakó. Það eru aðeins kjötvörur, sumar hverjar, sem átt er við - sem skipta ekki eins miklu máli fyrir heimilisbókhaldið og látið er í veðri vaka.
Öruggt er að margfalt stærri bú og stærri markaður geti framleitt, ja, t.d. ódýrara kjúklinga- og svínakjöt, auk grænmetis, en gerist á Íslandi. Til sölu á heimamarkaði. En dæmið er ekki svo einfalt.
Það kostar nefnilega að flytja afurðina yfir hafið. Svo mikið að yfirleitt velja menn frekar skipaflutning en flug. Íslenski smásalinn er engan veginn samkeppnisfær við smásalann í upprunalandinu og þarf því að láta grunnvöruna (staples) greiða niður kassaverðið. Þessi tímafreki innflutningur á ferskvörum bitnar líka á gæðunum, eins og flestir vandlátir kannast við.
Verðmyndun innflutts varnings er nefnilega reiknuð þannig út að lagt er saman verksmiðjuverðið, flutningskostnaður alla leið frá framleiðslustað, farmtryggingar, þjónustugjöld vegna innflutnings, virðisaukaskattur í tolli og tollur eftir atvikum, svo og sölukostnaður.
Vanti menn varahlut í bílinn sinn, þurfa þeir að greiða allan þennan kostnað að fullu. Bílaverkstæðin geta nefnilega ekki niðurgreitt varahlutina með neinu öðru en launalækkun bifvélavirkjanna.