Eru þau gleymd "Árin sem aldrei gleymast" ?

Ég lagðist í upprifjun um helgina; valdi úr bókaskápnum bók Gunnars M. Magnússonar (útg.1965) sem fjallar um fyrri heimstyrjaldarárin (1914-1918).  Það voru komin allmörg ár síðan ég las þessa bók síðast og  hafði gott af upprifjuninni, því einu og öðru hafði ég gleymt.

Að mestu leyti fjallar bókin um lífið á Íslandi á stríðsárunum og öllum þeim hræringum sem hér voru í þjóðfélaginu á þessum tíma.   Sennilega muna þó margir fullveldismálið, stjórnarskrármálið, fánamálið, áfengisbannið, kosningarétt kvenna, stofnun Eimskipa, Spönsku veikina og Kötlugosið. 

Þau mál sem ég sjálf hafði eiginlega alveg gleymt, hefur hins vegar meira með styrjaldarástandið sjálft að gera, þ.e. ytri aðstæður og afarkosti sem þjóðinni voru settir, án þess að landið sjálft væri hernumið.

Gunnar skrifar:  "Árið 1916 gripu bretar inn í allar siglingar íslendinga, stöðvuðu skip er sigldu á vegum landsmanna og vildi eigi leyfa sölu íslenskra afurða til Norðurlanda og Hollands, buðust hins vegar til þess að kaupa afurðir íslendinga.  Þar með höfðu bretar að mestu ákvarðað viðskipti íslendinga við Evrópulönd.  Voru þá íslendingar tilneyddir að gera sérstaka samninga við breta".

Seinna, eða árið 1917, "gerðu bandamenn í styrjöldinni og englendingar fyrir þeirra hönd, kröfur um að íslendingar afhentu togaraflota sinn til Bandamanna.  Gengu íslendingar að þessum kröfum."

Ekki þarf að taka fram að húsbóndinn; danski kóngurinn, sagði ekki múkk!

Annað atriði, sem margoft kemur fram í frásögn Gunnars, er framkoma þýsku kafbátasjómannanna.

Íslensk skip sigldu með fisk og aðrar vörur til Bretlands öll stríðsárin, og misstu þar mörg skip og einnig mannslíf.  En þeir þýsku höfðu þó þann háttinn á (lengst af) að stöðva skipin, kanna farminn og ef hann var ætlaður bretum (sem höfðu sett hafnbann á Þýskaland) létu þeir áhöfn og farþega fara í bátana og sökktu síðan skipunum.  Þessi riddaramennska þýskra var ekki endurtekin í seinna stríðinu - að mér hefur skilist.

Þau mega ekki gleymast - þessi ár!

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 9. október 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband