11.12.2010 | 16:15
Höfnum Icesave 3!
Samninganefndin síðasta hefur skilað af sér. Þá er líka fullreynt að lengra verður ekki komist með pólitískri samningaviðleitni. Og þar með viðleitni íslensku ríkisstjórnarinnar til þess að semja um að skuldaábyrgð á fjármálasvikum einkaaðila verði velt á íslenskan almúga - sem almenningur mun aldrei samþykkja.
Vissulega er útgáfa 3 verulega betrumbætt frá hinni "glæsilegu" útgáfu, sérstaklega vaxtaþátturinn, en dugir ekki til. Óvissuþættirnir eru of margir til þess að við getum leyft okkur að samþykkja hana. Ég fylgdist með beinni útsendingu þegar samninganefndin skilaði áliti sínu og það sem stakk mig mest var að í hinu greinargóða yfirliti sem Buchheit gaf um forsendur og framkvæmd, var að í nær hverri setningu setti hann fram EF. Ef þetta þá verður ef hitt. Á öllum þessum "efum" var samningurinn byggður. Sem er gjörsamlega ófullnægjandi hvað viðskiptasjónarmið varðar, en gæti þóknast pólitískum.
Þó er óþarfi að agnúast út í samninganefndina sjálfa; hennar hlutverk var að sinna þessari pólitísku samningatilraun og hún skilaði því með sóma.